fimmtudagur, 17. október 2013

Vetrarfrí

Gefið verður vetrafrí föstudaginn 18. október.
Næsta æfing verður þriðjudaginn 22.okt kl 16:00.
Hafið það sem allra best og æfið ykkur sjálfar með bolta hvar sem þið verðið :)

miðvikudagur, 11. september 2013

úrslitakeppnin og lokahóf!

Úrslitakeppnin hjá C-liðum fer fram í Kaplakrika, heimavelli FH-inga í Hafnarfirði. Leiknir eru tveir leikir á laugardegi, kl 10:00 og 14:00 og svo einn leikur á sunnudegi kl 10:00. Þær stelpur sem eiga að spila eru beðnar um að fylgjast vel með tölvupósti.

eftir úrslitakeppnina verður æfing kl 16:00 á þriðjudeginum 17. sept - jafnframt okkar síðasta sameiginlega æfing.
Á miðvikudeginum 18. sept verður svo haldið lokahóf flokksins í Lasertag í Salahverfi. Mæting kl 17:45 í Lasertagið sem byrjar stundvíslega kl 18:00. Gert er ráð fyrir að leik ljúki um kl 19:30 með pizzuveislu. Hafa með sér 1900 kr fyrir öllu saman, nema að innistæða í flokksjóði nægi til. Nánar í tölvupósti síðar.


þriðjudagur, 10. september 2013

Æfingar út vikuna. Úrslit hjá C um helgina

Það verður æfing í dag. Þrátt fyrir leiðindaveður. 16-17.
Síðan eru æfingar á fim og fös.
C-liðið spilar til úrslita næstu helgi í Hafnarfirði. Boðað verður í liðið á æfingu í dag, mikilvægt að mæta á æfingar í þessari viku fram að móti.
Veglega lokahófið er í smíðum, dagsetning er enn óljós en einhver dagur í vikunni 16-20. sept verður fyrir valinu.

mánudagur, 2. september 2013

September lengist :)

Vegna frestunar á úrslitakeppni höldum við hópnum aðeins lengur saman. Það verða því þrír árgangar í flokknum frá og með þriðjudeginum (2003,2002 og 2001). Við æfum þriðjudaga og fimmtudaga kl 16:00 og svo á föstudögum kl 15:00. Úrslitakeppni A og B liða fer fram næstu helgi (7-8 september). Upplýsingar um ferðatilhögun hefur verið send á foreldra. Úrslitakeppni C-liða fer fram 14-15. september (staðfest). Í vikunni þar á eftir höldum við lokahóf og hleypum 2001 stelpunum uppí 4. flokk.

þriðjudagur, 27. ágúst 2013

úrslitakeppnin. Info!

A og B lið spila í úrslitakeppni næstu helgi. C-liða keppninni hefur verið frestað um eina helgi, einhverra hluta vegna.
Við ætlum að boða í A og B-lið á æfingu í dag, en geymum aðeins boðun í C-liðið því nokkrar eru í fríi eða verða í fríi þá helgi.

Ljóst er að A-liðið keppir í Keflavík. Þangað verður farið á einkabílum snemma á laugardagsmorgni og spilaðir tveir leikir með léttu nesti í millitíðinni áður en haldið er aftur heim og gist í bænum. Sunnudagurinn er svo endurtekið efni, brottför snemma morguns en einungis einn leikur þann daginn.

B-liðið fer til Akureyrar. Spáin er mjög slæm og því hefur komið upp sú hugmynd að fljúga með liðið báðar leiðir. Einnig ættu að vera einhver laus pláss fyrir liðstjóra (foreldra). Flugið væri þá líklega snemma á laugardagsmorgni og svo heim eftir hádegi á sunnudegi. Flugpakkinn gæti kostað um 20 þús kr. Gistingin er í boði Þórsara, líklega í Glerárskóla svo stelpurnar þurfa að hafa með sér dýnu, svefnpoka og tilheyrandi.

Við geymum lokahófið fram yfir úrslitakeppni C-liða sem fer fram helgina 7-8 september. Næstu æfingar verða á þri,fim,fös 4-4-3.

laugardagur, 24. ágúst 2013

Næsta vika og úrslitakeppni næstu helgi

Nú liggja fyrir úrslit í Íslandsmóti og ljóst er að A, B og C liðin leika til úrslita næstu helgi. Stelpur í þessum liðum, muna að taka helgina frá eða láta vita af forföllum.
Vikan hjá okkur verður svona:
þri 27: æfing kl 16:00
fim 29: æfing kl 16:00
fös 30: æfing kl 15:00

Leikirnir í úrslitakeppninni eru settir kl 10:00 og 14:00 á laugardegi og svo 10:00 á sunnudegi. Mögulega förum við út á land með einhver lið. Eins og staðan er núna þá er ekki búið að setja inn leikvelli á úrslitakeppnina. Ferð út á land þýðir væntanlega keyrsla á föstudegi og svo heimferð á sunnudegi.

Æfingatímar vetrarins hjá 5.flokki eru næstum staðfestir, þeir eru sömu og í fyrra. (þri,fim,fös 4-4-3)
Þetta verða jafnframt okkar æfingatímar fram að lokahófi flokksins sem við eigum enn eftir að dagsetja. Búast má við veglegu lokahófi!


sunnudagur, 18. ágúst 2013

Síðasta sumarvikan

Nú er bara ein "sumarvika" eftir hjá okkur. Hún lítur svona út:
mán 19: æfing 15:30
þri 20: æfing 15:30
mið 21: leikir í Víkinni. A og C spila kl 16:00, mæting 15:30. B og D spila kl 16:50, mæting 16:20.
fim 22: æfing 15:30
fös 23: frí, skólar byrjaðir.

Þá eru línurnar farnar að skýrast í Íslandsmótinu hjá öllum liðunum. Hér má sjá stöðuna, og einnig drög að úrslitariðlunum. http://www.ksi.is/mot/motalisti/?flokkur=420&tegund=%25&AR=2013&kyn=0
Það lítur út fyrir að A og B liða keppnin sé leikin í tveimur riðlum helgina 31. ág - 1. sept. líklega er annar riðillinná landsbyggðinni og hinn á höfuðborgarsvæðinu. Þau lið sem vinna hvorn riðil mætast svo í hreinum úrslitaleik viku síðar. C-liða keppnin er leikin í einum riðli sömu helgi, 31. ág - 1. sept), örugglega á höfuðborgarsvæðinu. Þar verður leikið til úrslita.
Engin úrslitakeppni verður hjá D-liðum, því er D-liðið okkar að spila sinn seinasta leik á miðvikudag. Þar eigum við ágætis möguleika á silfrinu í D-liða keppninni. C-liðið er öruggt í sína úrslitakeppni, óháð úrslitum á miðvikudag. B-liðið er einnig komið í sína úrslitakeppni. A-liðið okkar getur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með hagstæðum úrslitum á miðvikudag.

Flutningur milli flokka, lokahóf og tilheyrandi hátíðarhöld verða í síðasta lagi um miðjan september. Æfingar síðustu vikuna í ágúst og byrjun september koma á bloggið þegar æfingatímar vetrarins liggja fyrir.

fimmtudagur, 8. ágúst 2013

Tvær vikur í ágúst

Fríið er nú senn á enda. Vonandi eru allar tilbúnar að mæta galvaskar í næstu viku. Planið er á þessa leið.

mán 12: æfing 15:30
þri 13: æfinf 15:30 ATH síðasta æfing fyrir leik
mið 14: C og D spila gegn Breiðablik 2 á Smárahvammsvelli (neðst í dalnum). C spilar kl 15:00 mæting 14:30, D spilar kl 15:50, mæting 15:20. A og B lið verða líklega í fríi því þeirra leikur gegn Val hefur verið færður á fimmtudag.
fim 15: A og B spila gegn Val á Hlíðarenda. A spilar kl 16:00, mæting 15:30. B spilar kl 16:50, mæting 16:20. Stelpur í C og D mæta á æfingu kl 14:00 (frjáls mæting með 6.fl.)
fös 16: æfing kl 12:30.

mán 19: æfing 15:30
þri 20: æfing 15:30 ATH síðasta æfing fyrir leik
mið 21: leikir í öllum liðum. A og C spila kl 16:00, mæting 15:30. B og D spila kl 16:50, mæting 16:20.
fim 22: æfing 15:30
fös 23: Frí! skólar byrjaðir

Vikan þar á eftir verður eitthvað skrautleg. Bíðum spennt eftir æfingaplani fyrir þá vikuna.

Muna að láta vita af forföllum. Muna líka að skila búningum frá Símamótinu.

þriðjudagur, 23. júlí 2013

Tvær æfingar eftir fyrir frí!

Smá breyting, æfing á morgun kl 14:30 sameiginlega með 4.fl. endilega allir að mæta!
Svo æfing á fimmtudag kl 15:30, sennilega verða bara yngra árs stelpur á þessari æfingu vegna Rey Cup hjá 4.fl. kvenna þar sem margar af okkar eldra árs stelpum spila. Kemur í ljós á næstu dögum.
Fyrsta æfing eftir frí verður mánudaginn 12. ágúst kl 15:30

mánudagur, 22. júlí 2013

Símamótið gert upp

Takk kærlega fyrir frábæra helgi, bæði foreldrar og að sjálfsögðu stelpurnar líka.
Framundan eru æfingar þessa vikuna kl 15:30, mán, þri, mið og fim áður en flokkurinn fer í sumarfrí fram til 12. ágúst. Þá verður æfing kl 15:30.

Pistill um mótið er kominn á heimasíðu Víkings; http://vikingur.is/index.php/knattspyrna/53206-6-flokkur-kvenna-simamotsmeistari

Sérstök kveðja til ykkar í 5.flokki...
Vonbrigði mótsins eru algjörlega ykkar tilfinning, sennilega orsakast hún af góðu gengi hingað til og miklum kröfum innan hópsins. Kröfur til ykkar geta einungis komið frá einhverjum innan liðsins, utanaðkomandi aðilar geta einungis verið með væntingar til ykkar. Við þjálfararnir vorum með miklar væntingar (ekki kröfur) um frábæra spilamennsku á mótinu og þið stóðuð svo sannarlega undir því. Það var því mjög súrt að slík spilamennska skyldi ekki hafa dugað okkar liðum til frekari árangurs á mótinu.

Stundum fær maður á tilfinninguna að ekkert sé að ganga upp þegar úrslitin koma ekki. Það er ekki þar með sagt að frammistaðan hafi verið léleg. Langt því frá.

Gleðilegt sumar? :)

mánudagur, 15. júlí 2013

Æfingaplan næsta mánuðinn!

Risafærsla! Nú liggur fyrir æfingaplanið fyrir næsta mánuð. Að undanskildu stórmótinu í Kópavogi eru engir leikir á næstunni. Kjörið tækifæri til að njóta tímans með fjölskyldunni og koma svo ferskar aftur í boltann eftir fríið. En fyrst einbeitum við okkur að Símamótinu.
Dagskráin framundan er á þessa leið.

þri 16: æfing 15:30
mið 17: æfing 15:00. Pizza og landsleikur kl 16:00. Muna að skrá sig í pizzuveisluna með tölvupósti
fim 18: æfing 15:30 - búningaafhending fyrir Símamótið. Stelpurnar fá búning að láni og sjá um hann sjálfar á meðan mótið stendur yfir
fös - sun  19 - 21: símamót! www.simamotid.is fylgjast með úrslitum á kvöldin
mán 22: æfing 15:30 - skemmtileg æfing, fjör í fyrirrúmi.
þri 23: æfing 15:30
mið 24: æfing 15:30
fim 25: æfing 15:30
fös 26: frí!
 ------ Tveggja vikna frí-----
Fyrsta æfing eftir frí verður 12. ágúst!




.

þriðjudagur, 9. júlí 2013

fimmtudagur, - breyting

Fimmtudaginn 11. júlí ætlum við að hafa æfingu kl 15:00.  - 16:00. Þá förum við inní Víkina og horfum saman á stelpurnar okkar spila við Noreg í úrslitakeppni EM
Svo verður æfing kl 12:30 á föstudeginum.

föstudagur, 5. júlí 2013

Vikuplan

Æfing í dag kl 12:30, sameiginleg með 4.fl. - ath. síðasta æfing fyrir leik. mikilvægt að vera í sambandi uppá mánudagsleikinn.
mán 8. júlí: Leikir í Grindavík hjá A og B kl 15:30, mæting 15:00 til Grindavíkur. Raða sér saman í bíla. Þær sem eru ekki að spila þessa leiki er frjálst að mæta með 6.fl. kl 13:00 eða taka sér frídag.
þri 9: Æfing hjá öllum kl 15:30.
mið 10: Leikir hjá A og B kl 15:00 gegn Þrótti á Suðurlandsbraut (grasvelli Þróttara við Suðurlandsbrautina). Mæting 14:30 beint á völlinn, enginn klefi. ATH báðir leikirnir samtímis, ekki rétt á ksi.is. D spilar sama dag kl 17:00 á grasvellinum í Safamýri gegn Framörum. mæting 16:30. Engin æfing þennan daginn.
fim 11: æfing kl 15:30
fös 12: æfing kl 12:30
mán 15: Leikir í A,B,C og D gegn FH. Hugsanlega færist þessi leikur til að beiðni FH-inga, kemur vonandi í ljós sem fyrst.

svo styttist í Símamótið, 18-21. júlí.

föstudagur, 28. júní 2013

Vikuplan

Æfing í dag, föstudag kl 12:30. seinasta æfing fyrir leik. Mikilvægt að mæta. Í kvöld er bikarleikur í mfl. kvenna gegn Fylki. Stelpurnar okkar verða heiðraðar í hálfleik fyrir vasklega framgöngu á Pæjumótinu í Eyjum. Vonandi mæta þær sem flestar á leikinn þrátt fyrir mikið um ferðalög. Leikurinn hefst 19:15!

Næsta vika er svo hljóðandi:
mán 1. júlí - Leikir gegn Breiðablik í Víkinni. A og C spila kl 17:00, (mæting 16:30) B og D spila kl 17:50 (mæting 17:20)
þri 2. júlí - æfing kl 15:30
mið 3. júlí - æfing kl 14:30 (sameiginleg með 4.fl. kv eins og í síðustu viku) Vonandi náum við aftur 40 stelpum á æfingu. Þetta er síðasta æfing fyrir leik!
fim  4. júlí - Leikir gegn Aftureldingu í Víkinni. A og B spila samtímis kl 15:00, mæting 14:30. C og D mæta á æfingu kl 15:30.
fös 5. júlí - æfing kl 12:30 - síðasta æfing fyrir leik!
mán 8. júlí - Leikir gegn Grindavík suður með sjó hjá A og B kl 15:30 (mæting 15:00 í Grindavík). Svipað bílafyrirkomulag og gegn Selfossi. C og D mega mæta á æfingu kl 13:00 - 14:00 (með 6.fl. en ef þær mæta fleiri en 8 verða þær sér.

Að lokum vil ég minna á að skráning fyrir Símamóti 18-21. júlí er hafin, mikilvægt að svara tölvupósti sem fyrst, hvort ykkar stelpa kemst eða kemst ekki. Við höfum skráð 4 lið til leiks og sennilega verður það alveg á mörkunum.

miðvikudagur, 19. júní 2013

Vikuplanið

Takk fyrir frábæra helgi í Eyjum!

Nú tekur við þétt leikjaprógram næstu 3 vikurnar sem innihalda alls 6 leiki. Þá er planið að halda pizzuveislu í aðdraganda Símamóts fyrir afgangspening af Eyjamótinu. Sú pizzaveisla verður ekki á sunnudaginn eins og talað var um á æfingu í dag, við frestum henni í bili.
Auk þess verða æfingarnar örlítið fyrr á daginn í næstu viku því tækifærið til þess bauðst.

Planið lítur þá svona út:
fim 10. æfing 15:30 (síðasta æfing fyrir leik)
fös 11: frjáls mæting kl 12:00 á sameiginlega æfingu með 4.fl.
helgarfrí
mán 24: leikir gegn ÍR/Leikni í Víkinni, A-lið spilar kl 16:00 (mæting 15:30) og B-lið spilar kl 16:50 (mæting 16:20). Þær sem eru ekki að spila þessa leiki mæta á æfingu kl 15:30.
Þri 25: Æfing kl 14:00! - breyttur tími.
Mið 26: Æfing kl 14:30! - breyttur tími! og síðasta æfing fyrir leik.
fim 27: Leikir gegn Selfoss á Selfossi! - nánar um það síðar, ATH leikirnir fara báðir fram kl 17:00! Frí hjá þeim sem eru ekki að spila þennan dag, því miður :(
fös 28: Æfing kl 12:30 - allir að mæta - síðasta æfing fyrir leik!
Mán 1. júlí: Leikir gegn Breiðablik A, B, C og D! - ath þær sem eru í Vindáshlíð vikuna á undan verða að vera í sambandi til að vita liðin.

Í restina læt ég fylgja með pistil um Eyjamótið, njótið!

Fimmtudagur
Fyrsti leikdagurinn í Eyjum gafst okkur Víkingum mjög vel. Öll liðin sigruðu sína leiki nokkuð sannfærandi. A-liðið sigraði Hauka, Hött og ÍA í mjög keimlíkum leikjum þar sem erfitt reyndist að brjóta á bak varnir andstæðinganna en eftir að mikilvægt annað mark hafði litið dagsins ljós í þessum leikjum reyndist eftirleikurinn þægilegur. B-liðið að sama skapi lenti í strembnum fyrri hálfleikum gegn Frömurum og Haukum en tókst að bera sigur úr býtum eftir vel spilaðan seinni hálfleik af okkur hálfu. Undir lok leiksins gegn Haukum var Bjarndís kominn í fremstu víglínu og var ekki lengi að koma boltanum yfir línuna, það með vinstri fæti í fyrstu snertingu. C-liðið fór af stað með flugeldasýningu í sínum fyrstu leikjum og hreinlega valtaði yfir andstæðinga sína, Aftureldingu, Snæfellsnes og Hauka. En C-liðið mátti búast við talsvert erfiðari föstudegi því riðill þeirra reyndist vera mjög tvískiptur. D-liðið sýndi sparihliðar sínar í fyrstu tveimur leikjunum, annars vegar í þægilegum leik gegn Breiðablik 2 þar sem Arna kom Víkingum snemma á blað og hins vegar í hörku spennandi leik gegn Breiðablik 1. Deginum lauk svo með öruggum sigri á Fram.
Á fimmtudeginum var svo mögnuð kvöldvaka þar sem hvert lið sýndi sitt Idol-atriði. Skemmst er frá því að segja að Víkingar voru með langflottasta atriðið fyrir utan sigurvegarana í ÍBV. Um kvöldið fóru stelpurnar svo snemma í háttinn að Bert lesturinn komst hreinlega ekki að, svo mikil var einbeitingin fyrir morgundeginum.

Föstudagur
Seinni leikdagur í riðlinum reyndist vera mun erfiðari en sá fyrri, öll liðin sáu fram á að spila við lið sem höfðu sigrað alla sína leiki í sama riðli og því í mörgum tilfellum um hreina úrslitaleiki að ræða hvort liðið færi uppúr riðlinum. A-liðið þurfti að fara fyrst í gegnum lið Gróttu og Snæfellsnes áður en leikur gegn FH um toppsæti riðilsins blasti við. Grótta reyndist okkar stelpum erfiður andstæðingur þrátt fyrir að hafa ekki skilað mörgum stigum í hús og sömuleiðis Snæfellsnes þar sem ógnarsterkur markvörður hirti flesta bolta í teignum. Leikurinn gegn FH varð hörkuleikur milli Reykjavíkur og Faxa meistara, var mál manna að þarna væri draumaúrslitaleikur mótsins. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli sem dugði báðum liðum uppúr riðlinum. B-liðið spilaði æfingarleik við Aftureldingu snemma um morguninn til gamans vegna eyðu sem hafði skapast vegna liðs sem dró sig úr keppni á síðustu stundu. Þá fór liðið þægilega í gegnum lið Sindra þar sem Elísa hætti ekki að skora. Lokaleikurinn var svo gegn Breiðablik um sæti í undanúrslitum. Þann leik spilaði B-liðið frábærlega, stelpurnar sýndu skipulagðan varnarleik í bland við hugmyndaríkan sóknarleik sem skilaði 4-1 sigri gegn Blikum, að vísu gáfu tölurnar ekki rétta mynd af leiknum en sigurinn engu að síður sanngjarn. Fyrsti leikur C-liðsins var gegn Stjörnunni sem fyrirfram var álitinn einn af öflugustu liðum riðilsins. Eftir hálftíma darraðadans stóðu Víkingar uppi sem sigurvegarar 1-0. Næsti leikur var gegn Framörum en þar verður að viðurkennast að betra liðið vann í þeim leik. Þrátt fyrir að Víkingar hefðu fengið nokkur góð tækifæri og varið vítaspyrnu lauk leiknum með sigri Framara 3-1. Margir héldu að þessi leikur þýddi að liðið ætti ekki lengur möguleika á sæti í undanúrslitum en eftir mikla útreikninga hjá Jóni fararstjóra kom í ljós að liðið varð að duga eða drepast í seinasta leik gegn Blikum, einungis sigur myndi koma liðinu áfram og hagstæð markatala. Mögulegt væri að skrifa bíómynd um seinasta leikinn gegn Blikum sem reyndist mjög opinn og var spennandi fram á lokamínúturnar. Liðin skiptust á að sækja en öflugir markverðir beggja liða komu í veg fyrir mörkum þar til Eydís þrumaði boltanum af 20 metra færi í fyrstu snertingu eftir frábært spil Víkinga. Boltinn söng í netinu og fögnuðurinn leyndi sér ekki. Í seinni hálfleik efldust Víkingar enn frekar og innbyrtu sanngjarnar 3-0 sigur þar sem Sigga réð allri umferð í gegnum miðjuna. Liðið var komið í undanúrslit. D-liðið átti fyrsta leik gegn Fylki 2 sem síðar átti eftir að standa uppi sem sigurvegari D-liða. Þar reyndust Fylkisstelpur öflugri og höfðu 2-0 sigur uppúr krafsinu. Þar með var von D-liðsins úrslitaleik mjög veik því engin undanúrslit voru í kepnni D-liða. Þær fóru þó í gegnum FH 2 mjög sannfærandi og því eygði liðið von á leik um bronsið ef því tækist að sigra Hött í lokaleik dagsins. Leikurinn gegn Hetti var að margra mati besti leikur liðsins á mótinu, boltinn gekk vel manna á milli á teppniu í Eimskipshöllinni en það dugði ekki til því Hattarstelpur sigruðu 2-0 og tryggðu sér í bronsleik daginn eftir. Okkar stelpur sátu eftir með sárt ennið og urðu að láta sér lynda leik um 5. sætið daginn eftir.
Um kvöldið var horft á Karólínu fara á kostum í liði Pressunar gegn Landsliðinu. Hún var ekki langt frá því að koma boltanum í netið og leggja upp annað fyrir samherja sinn ásamt því að sýna sínar bestu hliðar. Þá var komið að grillveislu og diskósundi hjá stelpunum og skemmtu þær sér konunglega.

Laugardagur
A-liðið drógst á móti FH í undanúrslitum og voru stelpurnar sannfærðar um að þessum leik myndi ekki ljúka með jafntefli. Leikurinn einkenndist af stressi og misheppnuðum sendingum framan af en á meðan heppnaðist allt upp hjá Karólínu sem óð í gegnum vörn FH-inga hvað eftir annað. Leiknum lauk með sannfærandi 5-1 sigri. Á sama tíma var B-liðið að spila gegn Fylki í undanúrslitum og sá leikur var ekki fyrir hjartveika. Liðin skiptust á að sækja og leiknum lauk með 3-3 jafntefli en þar sem Víkingar skoruðu á undan fögnuðu þeir í leikslok. C-liðið var einnig að spila sinn undanúrslitaleik á sama tíma en á Þórsvelli gegn Frömurum sem hafði sigrað okkar lið daginn áður. Stelpurnar höfðu því harma að hefna og kreystu fram allt sem þær áttu inni. Eftir stórleik Mörtu stóðu Víkingar uppi sem sigurvegarar 2-1. D-liðið spilaði strax á eftir um 5. sætið gegn FH. Sá leikur var sennilega með slakari leikjum liðsins, stelpurnar eiga í fullu tré við lið FH á góðum degi en sá dagur var ekki þessi laugardagur. FH-ingar sigruðu nokkuð sannfærandi 2-0 og Víkingar voru heppnir að fá ekki á sig fleiri mörk því Ellu tókst að loka markinu nokkrum sinnum mjög vel. D-liðið lauk keppni í 6. sæti og tóku því að sér hlutverk stuðningsmanna í úrslitaleikjum C, B og A-liða á Hásteinsvelli. C-liðið spilaði fyrst af öllum og það gegn FH. Leikurinn var opinn og skemmtilegur, færi á báða bóga en FH-ingar voru fyrri til að skora. Víkingsstelpum reyndist erfitt að koma sér í góð færi þrátt fyrir gott spil á miðjum velli. Markið kom í lok leiks en það reyndist of seint og leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem FH-ingar skoruðu á undan. Vonbrigðin leyndu sér ekki á andlitum stelpnanna sem reyndar tóku tapinu með sæmd og þökkuðu fyrir leikinn. Sannir sigurvegarar kunna líka að tapa og stelpurnar stóðu undir því. B-liðið steig næst á sviðið og þvílíkur leikur! B-liðið sýndi sexy-fótbolta frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Hekla setti í lás í vörninni sem hún hafði reyndar gert allt mótið en það var mjög áberandi í úrslitaleiknum. Miðju og kantspilið flæddi mjög vel og færin komu á færibandi. Elísabet hitti algjörlega á daginn og vann hvern einasta bolta sem nálgaðist miðjuna ásamt því að skora tvo glæsileg mörk. Sjaldan hefur úrslitaleikur unnist jafn sannfærandi og þessi 3-0 sigur Víkinga. A-liðið tók á móti Blikum sem höfðu lagt Stjörnuna í undanúrslitum. Á 5. mínútu lentu stelpurnar í miklu áfalli þegar Karólína varð að fara af velli og uppá sjúkrahús. Í kjölfarið tóku við erfiðar mínútur þar sem Blikar stjórnuðu umferðinni og okkar stelpur virtust annars hugar, eðlilega. Elísa og Elísabet komu sigurreifar A-liðinu til bjargar á mikilvægu augnabliki eftir brotthvarf Karólínu og sú síðarnefnda kveikti vonir Víkinga með marki af miklu harðfylgi undir lok síðari hálfleiks. Í seinni hálfleik stigu Víkingar fastar á bensíngjöfina og máttu Blikar bjarga tvívegis á línu og markvörður þeirra varði meistaralega ótrúlegt skot frá Ísabellu. Blikar áttu líka sína sénsa en Tara bjargaði meistaralega í tvígang. Mikil fagnaðarlæti brutust út að leikslokum á meðal Víkinga, þá ekki einungis vegna sigranna heldur bárust þær fréttir af sjúkrahúsinu að Karólínu færist vel.
Að loknum mat og verðlaunaafhendingu var farið í einu alvöru eftirlifandi sjoppuna í Eyjum þar sem stelpurnar gæddu sér á ís í brauðformi í sól og blíðu. Heimferðin gekk vel þar sem flugfreyjurnar Helga Rún og Sigga Marta skemmtu stelpunum.
Takk fyrir frábæra helgi í alla staði! 


föstudagur, 7. júní 2013

Næsta vika

Á mánudaginn 10. Júní hefst sumarplanið hjá flokknum. Við æfum alla virka daga kl 15:30 nema föstudaga. Föstudagarnir verða misjafnir, í júní og fram í miðjan júlí reiknum við með að hafa æfingar á föstudögum kl 13:00 en yfir hásumar verður frí á föstudögum. Þessa föstudaga verður frjáls mæting og líklega sameiginleg æfing með 4.fl. eða 6.fl. eftir því hvort hentar betur. Þær æfingar verða auglýstar á blogginu.

Knattspyrnuskólinn sívænsæli verður starfandi í júní og júlí og viljum við hvetja stelpurnar til að skrá sig. Hvert námskeið stendur yfir í tvær vikur, alla virka daga kl 9 -12. (Síðasta námskeiðið 22 – 26. Júlí er ein vika). Allar upplýsingar um skráningu í skólann má finna á vikingur.is
Næsta vika hjá okkur verður lituð af Vestmannaeyjaför á miðvikudeginum. Á mánudag og þriðjudag verða æfingar kl 15:30 samkvæmt áætlun, mjög mikilvægt að mæta á þessar æfingar þar sem stelpurnar fá afhentar treyjur og markafögnin verða samin. Við viljum líka hvetja stelpurnar til að skrá sig í knattspyrnuskólann frá 9-12 á mánudag og þriðjudag. Þar verður æft á grasi, nokkrar léttar æfingar ásamt þrautum og skemmtilegri samveru alls hópsins fyrir Eyjaferðina. Hægt er að borga daggjald fyrir knattspyrnuskólann með því að hafa samband við Óla íþróttastjóra.

Á miðvikudag er svo brottför frá Víkinni kl 10:00. Mikilvægt að mæta kl 9:30 í Víkina.

Fyrsta æfing eftir Eyjar verður á þriðjudeginum kl  15:30. (mánudagur er 17. júní)

fimmtudagur, 30. maí 2013

Dagarnir fram að Eyjum

fim 30: æfing 16:00
fös 31: æfing 15:00 , seinasta æfing fyrir leik.
þri 4: leikir við Fylki í A,B, C, D. Engin æfing. A og C spila kl 17:00 í Árbæ, (mæting 16:30) B og D spila kl 17:50, (mæting 17:20)
fim 6. æfing hjá A, B, C kl 16:00. Leikur hjá D kl 16:00, mæting 15:30 í Víkina.
fös 7. æfing 15:00
-----------------------------
Sumardagskráin hefst frá og með mánudeginum 10. júní. Knattspyrnuskólinn verður í gangi og stelpurnar geta skráð sig fyrstu tvo dagana ef þær hafa áhuga. Við reiknum með mikilli þátttöku í vikunni eftir Eyjar.
mán 10: Æfing 15:30
þri 11: Æfing 15:30
mið 12: Eyjar.....

miðvikudagur, 22. maí 2013

Leikir við Stjörnuna á föstudag

Leikurinn gegn Stjörnunni verður spilaður á föstudaginn 24. maí kl 18:00 og 18:50 í Víkinni.
Á æfingu á morgun (fimmtudag) verður raðað í lið fyrir föstudaginn.
Á föstudaginn er æfing hjá D-liðinu kl 15:00. A og C keppa kl 18:00, mæting 17:30. B keppir kl 18:50, mæting 18:20.
Hugarþjálfun hjá Hauki Inga verður á sínum stað fyrir þær sem eru skráðar á það námskeið.
Vonandi komast sem flestar þrátt fyrir stuttan fyrirvara.
kv,
þjálfarar

mánudagur, 20. maí 2013

Fimmtudagsleikjum frestað!

Fimmtudagsleikjunum hefur verið frestað í öllum liðum. Því miður. Nýr leiktími er mánudagurinn 10. júní.
Í staðinn verður æfing kl 16:00 á venjulegum tíma á fimmtudaginn.
kv, þjálfarar

föstudagur, 17. maí 2013

Foreldrafundur og fyrstu leikir Íslandsmóts

Næsta vika hefst með venjulegri æfingu þriðjudaginn 21. maí, þrátt fyrir frí í skólum. Mjög mikilvægt að mæta á þessa æfingu því hún er jafnframt sú síðasta fyrir fyrsta leik í Íslandsmóti. Um kvöldið er svo foreldrafundur kl 20:00. Mjög mikilvægt að foreldrar láti sjá sig.
Á fimmtudaginn 23. maí eru fyrstu leikir í Íslandsmóti. A og C spila kl 17:00 (mæting 16:30) B og D spila kl 17:50 (mæting 17:20). Leikirnir eru í Víkinni. Engin æfing þennan dag.
Föstudaginn 24. maí - venjuleg æfing kl 15:00
þri 28. æfing kl 16:00
fim 30. æfing kl 16:00
fös 31. æfing kl 15:00 - seinasta æfing fyrir leik.
Þri 4. júní - leikir gegn Fylki í Árbæ


miðvikudagur, 8. maí 2013

Leikir um helgina vs Fram. Reykjavíkurmóti lýkur

Frí á uppstigningardag, 9. maí.
Æfing á föstudag 10. maí 15:00 - 16:00
Leikir á laugardag í B, C1 og C2 í Víkinni gegn Fram. C1 og C2 spila kl 10:00 (mæting 9:30). B spilar kl 10:50 (mæting 10:20)
Þar með lýkur Reykjavíkurmótinu hjá stelpunum. Framhaldið er svo rólegt, fyrsti leikur í Íslandsmóti er settur 23. maí en fram að því eru engin verkefni. Stefnt er að því að halda foreldrafund í millitíðinni og fara yfir komandi sumar og þá sérstaklega fyrirhugaða ferð til Eyja.

Muna að láta vita ef þið komist ekki í leikina. Það stefnir í frekar mikil forföll á laugardaginn.
kv, þjálfarar

þriðjudagur, 30. apríl 2013

Dagur verkalýðsins, 1. maí! - frí á fim.

Á morgun er leikur í A og B gegn Fjölni á gervigrasinu á bakvið Egilshöllina. A-liðið spilar kl 10:00, mæting 9:30. B-lið spilar kl 10:50, mæting 10:20. Eftir leikinn er planið að fara í sund með stelpurnar, hittast í Laugardalslauginni kl 12:00. Stelpurnar sjá sjálfar um að koma sér þangað. A-lið stelpurnar eru hvattar til að vera vel klæddar og styðja við B-liðið sem spilar strax á eftir. Þær geta svo farið saman í sund.

Á fimmtudeginum fellur niður æfing vegna leiks á vellinum kl 16:30. Stelpurnar geta þó komið og spilað fram til kl 16:20. Marteinn verður á svæðinu og getur lánað bolta.

Svo er planið:

fös 3. maí - æfing
þri 7. maí - æfing
fim 9. maí  (uppstigningadagur) FRÍ
fös 10. maí - æfing
lau 11. maí - leikir í Reykjavíkurmóti


föstudagur, 19. apríl 2013

Síðustu dagarnir í Apríl

Næstu dagar eru heldur óvenjulegir, margir leikir og einnig frídagar framundan.
þri 23. Leikur hjá A-liði kl 16:00 í Víkinni (mæting 15:30). B, C1 og C2 mæta á æfingu kl 16:00
fim 25. Sumardagurinn fyrsti. Mæting hjá öllum kl 12:30 í Grímsbæ, þar verða grillaðar pylsur og síðan fer hópurinn í skrúðgöngu til kirkju. Engin æfing þann daginn.
fös 26. Æfing samkvæmt áætlun kl 15:00. ATH seinasta æfing fyrir leiki hjá C1 og C2.
Frí yfir helgina! -Leikir færðir á mánudag. Skyndilega kom í ljós að þessir leikir gætu ekki farið fram á tilsettum tíma.
mán 29. Leikir hjá C1 og C2 við Framara í Safamýrinni kl 16:00. Mæting 15:30. A og B í fríi.
þri 30. Æfing hjá öllum kl 16:00. ATH seinasta æfing fyrir leik hjá A og B
mið 1. maí. Leikir hjá A og B - A spilar á undan kl 10:00 (mæting 9:30) og B spilar á eftir kl 10:50 (mæting 10:20) Frí hjá C1 og C2. Leikirnir fara fram á gervigrasvellinum bakvið Egilshöllina og við hittumst þar, enginn klefi.
Muna að láta vita ef þið komist ekki í einhverja af þessum leikjum.

fimmtudagur, 11. apríl 2013

11 - 19. apríl

Planið næstu daga aprílmánaðar er á þessa leið:

fim 11. Æfing
fös 12. Æfing - ath síðasta æfing fyrir leik hjá A, B, C1
sun 14. Leikir í A, B, C1. A og C1 spila 10:00 (mæting 9:30) B spilar kl 10:50 (mæting 10:20). Leikirnir í Víkinni.
þri 16. Æfing
fim 18. Æfing - ath síðasta æfing fyrir leik hjá C1 og C2.
fös 19. Leikir hjá C1 og C2 kl 15:15 í Víkinni. Mæting 14:45. A og B mæta á æfingu kl 15:00 - 16:00.

kv, þjálfarar

þriðjudagur, 2. apríl 2013

Vikuplanið

Nú er páskafríið á enda og þá fara að sjálfsögðu æfingar og leikir aftur á fullan mótor.
Þessi vika er hefðbundin, 3 æfingar og svo leikir á sunnudag. Næsta vika er svo nokkuð venjuleg að undanskildum leik hjá C2 á þriðjudeginum. Stelpur, kíkja á planið og kanna hvort þið komist ekki í leikina og láta vita af forföllum.
Þriðjudagur kl 16:00
Fimmtudagur kl 16:00
Föstudagur kl 15:00 - ATH! seinasta æfing fyrir leiki gegn Val í A,B,C1 og gegn Þrótti í C2.
Sunnudagur 7. apríl, leikir gegn Val á Hlíðarenda. A og C1 kl 10:00 (mæting 9:30) og B kl 10:50 (mæting 10:20)
Þriðjudagur 9. apríl, leikur hjá C2 við Þrótt kl 16:00 (mæting 15:30). Æfing hjá A, B og C1 kl 16:00

kv,
Þjálfarar

fimmtudagur, 14. mars 2013

Marsmánuður - það sem eftir er af honum

Svona lítur planið út fram að páskum.
15. mars fös. Venjuleg æfing, boðað í lið fyrir þriðjudaginn.
19. mars þri. Venjuleg æfing hjá A og C1. B-lið spilar við Fram í Safamýrinni kl 16:00, mæting 15:30. C2 spilar við Val í Víkinni kl 16:00, mæting 15:30
21. mars fim. Venjuleg æfing kl 16:00 - 17:00. Síðan förum við inní Víkina, gæðum okkur á einhverju góðgæti og spjöllum aðeins saman. Skemmtunin verður búin kl 18:00. ATH! Stelpurnar eiga að mæta með mottu! Verðlaun verða veitt fyrir flottustu mottuna.
22. mars fös. Venjuleg æfing hjá öllum
26. mars þri. Venjuleg æfing hjá öllum, seinasta æfing fyrir páskafrí.
28. mars fim. Frí
29. mars fös. Frí
2. apríl þri. Venjuleg æfing hjá öllum, fyrsta æfing eftir páska.

Muna að láta vita tímanlega ef þið sjáið framá að komast ekki í leiki.
kv, þjálfarar

föstudagur, 8. mars 2013

leikir á morgun og þriðjudag

Æfingarnar í þessari viku hafa verið í takt við veðrið, eðlilega. Þá er sérstaklega mikilvægt að fylgjast vel með á blogginu og gera sér grein fyrir þeim leikjum sem framundan eru. Núna á æfingu áðan voru nokkrar ekki mættar og aðrar að afboða sig í leikina um helgina. Það er of seint að láta vita deginum áður hvort maður geti verið með eða ekki og gerir þjálfurum mjög erfitt fyrir þegar það þarf að raða í lið. Stelpur, fylgjast vel með!

Leikirnir á morgun verða fullmannaðir eftir símtöl kvöldsins, engar áyggjur af því.
A og C1 mæta kl 9:30 á KR völl, leikur kl 10:00
B mætir kl 10:20, leikur 10:50.

Á þriðjudaginn er svo leikur hjá A og B en C1 og C2 mæta á æfingu eins og í venjulegri viku. Allt í Víkinni.
A mætir kl 15:00, leikur 15:30.
B mætir kl 15:50, leikur 16:20.
C1 og C2 mæta á æfingu kl 16:00.

þriðjudagur, 5. mars 2013

Næsta vika

Frábærri ferð á Goðamótið er nú lokið. Stelpurnar skemmtu sér konunglega og sýndu góða takta inná vellinum. Við þjálfararnir erum mjög ánægðir með ferðina í heild sinni og alla sem komu að henni. Vonandi verður jafn gaman í Eyjum í júní.

Næsta vika er viðburðarík. Stelpurnar þurfa að skoða dagskrána hjá sér og láta vita ef þær komast ekki í leikina.
Á laugardaginn næstkomandi, 9. mars spila A, B og C1 við KR í Frostaskjóli. A og C1 kl 10:00 og svo B kl 10:50.
Á þriðjudeginum þar á eftir (12. mars) eru leikir í A og B við ÍR/Leikni á æfingatíma okkar. C1 og C2 mæta þá á æfingu á venjulegum tíma kl 16:00. A-lið mætir kl 15:00 og spilar kl 15:30. B-lið mætir kl 15:50, leikur kl 16:20.
Fimmtudaginn 14.mars er venjuleg æfing hjá öllum.
KSÍ: http://www.ksi.is/mot/leikir-felaga/?felag=103&vollur=%25&flokkur=420&kyn=0&dFra-dd=31&dFra-mm=01&dFra-yy=2013&dTil-dd=07&dTil-mm=12&dTil-yy=2013

föstudagur, 15. febrúar 2013

Fyrstu leikir í Reykjavíkurmóti! - og Febrúarplanið

Fyrstu leikir í Reykjavíkurmóti eru á sunnudag og mánudag.

C2 á leik við KR í Frostaskjóli kl 10:00, mæting 9:30 á sunnudaginn

Síðan eiga öll liðin leik á mánudag við Fylki uppí Árbæ.
A og C1 spila kl 16:30, mæting 16:00
B og C2 spila kl 17:20, mæting 16:50

Liðin fyrir þessa leiki verða tilkynnt á æfingu á eftir.

Næsta vika verður með örlítið breyttu sniði vegna vetrarfrís í skólum. Æfingin á þriðjudag verður á sínum stað en á fimmtudeginum verður frjáls mæting á sama tíma og venjulega kl 16:00. Föstudagsæfingin fellur hins vegar niður. Leikurinn 23. febrúar í B-liði gegn Fram verður færður til og spilaður síðar. (ath. ksi.is)

Vikan þar á eftir litast af Goðamótinu 1-3. mars. Þá verða æfingar samkvæmt plani á þriðjudeginum 26. og fimmtudeginum 28. febrúar. 1. mars verður svo haldið norður á Goðamótið og því miður engin æfing fyrir þá sem fara ekki með norður.

kveðja,
þjálfarar

sunnudagur, 10. febrúar 2013

Bloggið vaknar, vorið er komið!

Nú fer að líða að spennandi tímum hjá 5.flokki kvenna. Reykjavíkurmótið er að bresta á og svo styttist í Goðamótið á Akureyri. Bloggið fer núna á fullt, vikulega munu koma færslur hér inn um leiki næstu vikna sem á eftir fylgja og því mikilvægt að fylgjast vel með. Við viljum hvetja stelpurnar til að kíkja reglulega á bloggið, þær eiga að vita sjálfar hvenær næsti leikur er og hvort þær geti tekið þátt eða ekki.

Drög að Reykjavíkurmótinu liggja fyrir á ksi.is og má finna leiki flokksins með því að smella á Allir Leikir 2013, hægra megin á bloggsíðunni. Eða bara hér: http://www.ksi.is/mot/leikir-felaga/?felag=103&vollur=%25&flokkur=420&kyn=0&dFra-dd=31&dFra-mm=01&dFra-yy=2013&dTil-dd=07&dTil-mm=12&dTil-yy=2013
Eins og sjá má erum við skráð til leiks með fjögur lið, A, B, C1 og C2. Leikirnir fara flestir fram snemma um helgar en einstaka leikir falla á virka daga. Leikirnir eiga eitthvað eftir að færast til en vonandi verður það gert með góðum fyrirvara og þá birtast upplýsingar um nýja leiktíma hér á blogginu. Stelpurnar þurfa að fylgjast vel með leikjum síns liðs og láta vita ef þær komast ekki á seinustu æfingu fyrir leik. Við þjálfararnir munum alltaf raða í lið á æfingu fyrir leik og gefa hverjum iðkanda mætingatíma og þess vegna er mikilvægt að vera í símasambandi við okkur ef þið komist ekki á æfingu af einhverjum ástæðum. Það er ekki í lagi að mæta í leiki án þess að hafa haft samband. Þá viljum við að stelpurnar hafi samband símleiðis eða með tölvupósti tímalega ef þær komast ekki á æfingu, ekki nota commentakerfið á blogginu því við sjáum þau skilaboð síður en hin.

Stelpurnar vita sirka hvar þær standa og hvaða liði þær tilheyra í flestum tilvikum, en við viljum hvetja þær til að fylgjast með hinum liðinum líka enda er þetta einn flokkur. Markvarðarmálið verður leyst með þeim hætti að þær skiptast á þegar engin býður sig fram, alveg eins og á æfingum hingað til. Við fylgjumst með hverjir eru í mörkunum og hverjar eiga eftir að standa sína vakt á milli stanganna.

Ágætis skráning er á Goðamótið 1-3. mars, ljóst er að alls fara 21 stelpa með í för og ætlum við að láta það duga í þrjú lið sem þýðir að við megum ekki við neinum forföllum.

Næsta vika verður aðeins með breyttu sniði því við ætlum að vera með kökur og kræsingar í Víkinni á fimmtudaginn 14 strax eftir æfingu kl 17:00. "Gamansamaninu" lýkur um kl 17:30. Á föstudeginum er svo síðasta æfing fyrir leik og því verða stelpurnar að mæta á þá æfingu eða vera í sambandi við okkur þjálfarana. Þær sem komast ekki í leikina mega endilega láta vita sem fyrst. Það er auðvitað ekkert mál, það verður engum refsað fyrir að komast ekki í leiki.

kveðja,
Marteinn, Þórhallur og Unnbjörg