laugardagur, 30. júní 2012

Leikir við Breiðablik á mánudag

Við eigum leiki við Breiðablik á mánudaginn í öllum liðum. A og C liðin spila klukkan 16:00 (mæting 15:30) B liðið spilar klukkan 16:50 (mæting 16:20). Leikirnir verða spilaðir á Smárahvammsvelli en fyrir þá sem ekki vita er hann staðsettur rétt norðaustan við Sporthúsið, kort:
https://maps.google.is/?ll=64.104418,-21.894379&spn=0.006082,0.016544&t=h&z=16
Fífan/Smárinn eru neðst í vinstra horninu og Smárahvammsvöllur er efst í hægra horninu.

Liðin eru eftirfarandi:

A: Elísa, Elísabet, Ísabella, Magga, Tara, Birgitta, Veiga, Sara S
B: Sóley, Anna, Hrafnhildur, Ísafold, Þórunn, María
C: Bjarndís, Hekla, Helga R, Helga S, Jóhanna, Lára, Sigga, Guðrún, Halldóra

Þar sem nokkrar stelpur eru í sumarfríi gæti ég þurft að biðja einhverjar stelpur í C að spila líka með B liðinu.

Vikan 2.-8. júlí

Mánudagur: leikur við Breiðablik á Smárahvammsvelli í A, B og C klukkan 16:00 og 16:50
Þriðjudagur: æfing kl. 14:15
Miðvikudagur: æfing kl. 14:15
Fimmtudagur: æfing kl. 14:15
Föstudagur: æfing kl. 13:30
Laugardagur: frí
Sunnudagur: frí

föstudagur, 29. júní 2012

Lélegir leikir við Selfoss

A og B liðin spiluðu við Selfoss síðastliðinn miðvikudag, A liðið vann góðan sigur í Aftureldingu í síðustu viku og stóð til að fylgja þeim sigri eftir enda höfðum við unnið Selfoss á pæjumótinu. B liðið hafði hins vegar ekki mætt Selfossi áður og renndu því blint í sjóinn.

A liðið byrjaði sinn leik vel og áttum við nokkur ágætis færi sem ekki tókst að nýta. Það var því gegn gangi leiksins þegar Selfyssingar skoruðu úr sinni fyrstu alvöru sókn og komust yfir. Við það misstum við aðeins dampinn og leikurinn jafnaðist. Við komum sterkar til leiks í seinni hálfleik og uppskárum jöfnunarmark um miðjan hálfleikinn.Stuttu síðar fengu Selfyssingar ódýrt víti og komust aftur yfir. Fauk þá öll einbeiting út í veður og vind og innan skamms var staðan orðin 3-1, gestunum í vil. Síðustu 5 mínútur leiksins einkenndust af tilviljanakenndu spili okkar og væli yfir dómara leiksins og fóru því Selfyssingar heim til sín með 3 stig í farteskinu.

B liðið eyddi fyrstu 5-10 mínútum síns leiks á vallarhelmingi andstæðinganna en án þess þó að skapa sér færi, og vantaði þá sárlega meiri breidd hjá kantmönnunum. Ekki ólíkt því sem gerðist í A leiknum skoruðu Selfyssingar úr sinni fyrstu sókn, nema í þetta skiptið var um langskot að ræða sem datt undir slánna. Aftur tókum við völdin á vellinum en erfiðlega gekk að búa til færi. Í seinni hálfleiknum opnaðist leikurinn aðeins meira og fengum við fín færi til að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki. Selfyssingar sóttu líka meira en án þess þó að ógna marki okkar að neinu ráði. Það var því heldur súrt þegar dómarinn flautaði leikinn af og ljóst að engin stig kæmu í hús þann daginn.

mánudagur, 25. júní 2012

Leikur við Selfoss á morgun

A og B liðin spila við Selfoss á morgun og þar sem það voru svo fáar á æfingu í dag eiga allar að mæta í leikina svo það verður engin æfing á morgun. A liðið spilar 16:00, mæting 15:30 og B liðið spilar 16:50, mæting 16:20.

A: Ísabella, Tara, Sóley, Elísa, Veiga, Birgitta, Vala, Magga, Elísabet
B: Hrafnhildur, Helga R, Ragnhildur, Sigga, Guðrún, Marta, Halldóra, Sara S, Anna, Lára

sunnudagur, 24. júní 2012

Vikan 25. júní - 1. júlí

Mánudagur: æfing 14:15
Þriðjudagur: leikir hjá A og B við Selfoss í Víkinni kl. 16:00 og 16:50, æfing 14:15 hjá hinum
Miðvikudagur: æfing 14:15
Fimmtudagur: æfing 14:15
Föstudagur: æfing 13:30
Laugardagur: frí
Sunnudagur: frí

Svo vil ég minna stelpurnar á Knattspyrnuskólann, alla virka morgna frá 9:00-12:00. Það byrjar nýtt námskeið á mánudaginn (25. júní) og ef við náum ágætum fjölda (10-15+) þá verðum við í sérhóp. Knattspyrnuskólinn er frábært tækifæri til að bæta alla tækni ásamt því að vera dúndurgaman. Skráning og nánari upplýsingar á  http://vikingur.is/index.php/forsiea/sumarnamskeie

Flottir leikir við Aftureldingu

Síðasta miðvikudag fórum við í heimsókn í Mosfellsbæinn og sóttum Aftureldingu heim. Vegna mikilla forfalla voru aðeins 12 leikmenn sem voru ekki í fríi og því ekki nóg til að ná í 2 fullskipuð lið. Sem betur fer hafði þjálfari Aftueldingar gefið leyfi sitt fyrir því að nokkrir leikmenn spiluðu með báðum liðum og ber að þakka honum fyrir það. A liðið spilaði því án varamanns en B liðið hafði einn.

A liðið byrjaði sinn leik af miklum krafti og var staðan orðin 2-0 eftir aðeins 5 mínútur. Færðum við okkur þá aðeins aftar vitandi að ekki voru skiptingar í boði og því hætt við að þreyta færi að segja til sín. Sóknarmenn Aftureldingar komust aldrei langt gegn sterkum varnarleik okkar og fóru að reyna langskot langt fyrir utan teig. Lak eitt slíkt skot fram hjá Ragnhildi í markinu sem átti annars stórleik. Staðan í hálfleik var 2-1 og planið í seinni hálfleik það sama, bíða og halda og sækja svo hratt þegar það átti við. Gekk það fullkomlega og þau örfáu skipti sem Afturelding náði á brjótast í gegnum varnarmúrinn okkar tók Ragnhildur til sinna ráða og læsti hreinlega markinu. Við áttum síðan þónokkrar álitlegar skyndisóknir en náðum þó ekki að skora. Það var aðeins farið að draga af okkur þegar dómarinn flautaði til leiksloka og sætur sigur í höfn, það er lýsandi fyrir leikinn að þegar um mínúta var eftir af leiknum og enn minna bensín á tankinum voru kantmennirnir ennþá til í að bruna upp kantinn með Veigu í skyndisókn ef ske kynni að þörf væri fyrir þá.

B liðið var að mestu skipað leikmönnum sem höfðu spilað með C liðinu í eyjum og tapað þar fyrir sigurliði Aftureldingar 3-0. Þær létu það þó ekki trufla sig og spiluðu flottan bolta þrátt fyrir að 3 leikmenn (Sara S, Ragnhildur og Dagný) hefðu einnig spilað með A liðinu og væru dauðþreyttar. Þrátt fyrir nokkur álitleg færi í byrjun leiks mistókst okkur að skora og fór Afturelding að færa sig framar á völlinn og jókst pressan smátt og smátt. Vörnin stóð þó fyrir sínu og Helga var flott í markinu fyrir aftan. Stíflan brast þó skömmu fyrir hálfleik og staðan því 1-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik færðum við liðið aðeins framar og fengum fín færi til að jafna metin án þess að skora. Það að liðið var komið framar gaf fljótum framherja Aftureldingar meira pláss og þegar líða tók á hálfleikinn náði hún að nýta sér það og skoraði/lagði upp ein fjögur mörk. Við héldum áfram að sækja en inn vildi boltinn ekki og lokatölur því 5-0. Það er erfitt að neita því að Afturelding var betri en við í þessum leik en heldur súrt að ná ekki a.m.k. einu marki.

föstudagur, 22. júní 2012

Pæjumóti í eyjum lokið

Ég vil byrja á að þakka stelpum og foreldrum fyrir góða og skemmtilega ferð til eyja síðustu helgi, allt gekk vel og stelpurnar stóðu sig með prýði. Árangur inni á vellinum var í meðallagi en árangur í gleði var til fyrirmyndar. Farið var í rútuferð um eyjuna og síðan stutta siglingu, þá var farið að spranga ásamt því að stúlkur fluttu glæsilegt atriði í hæfileikakeppninni.

A liðið byrjaði mótið með seiglusigri, 1-0, á Selfossi þar sem illa gekk að brjóta ísinn en sigurmarkið kom þegar skammt var eftir af leiknum. Næst á dagskrá var Valur sem hafði farið illa með okkur í Reykjarvíkurmótinu fyrir skömmu. Var sá leikur jafn og spennandi og augljóst frá fyrstu mínútu að okkar stúlkur ætluðu að svara fyrir útreiðina um daginn. Fóru þó leikar svo að hvorugt liðið náði að skora þrátt fyrir nóg af marktækifærum. Síðasti leikur dagsins var á móti Aftureldingu en þá var eins og lítið bensín væri eftir á tankinum því sá leikur tapaðist 3-0. Morguninn eftir var komið að Keflavík sem voru í efsta sæti riðilsins. Eftir að hafa fengið á okkur klaufalegt mark eftir langt innkast sóttum stúlkurnar í sig veðrið og náðu að jafna en voru vart hættar að fagna því marki þegar Keflavík komst aftur yfir. Þrátt fyrir mikla pressu í seinni hálfleiknum náðu stúlkurnar ekki að jafna og bætti Keflavík einu marki við undir lokin þegar áherslan á sóknarleikinn var orðin fullmikil. FH var næst á dagskrá og þá mættu stúlkurnar, að mínu mati, í eina skiptið á mótinu ofjörlum sínum. FH liðið spilaði flottan bolta en okkar stúlkur sýndu að þær kunna ýmislegt fyrir sér í vörn og náðu að halda hreinu þrátt fyrir þunga sókn FH í seinni hálfleik. Leikurinn við Gróttu byrjaði mjög vel og skoruðu stúlkurnar 2 mörk á fyrstu 5 mínútunum og leit allt út fyrir þægilegan sigur. Þá hægðu stelpurnar aðeins á og Grótta náði að komast inn í leikinn, þær fengu síðan ódýrt víti skömmu fyrir hálfleik og minnkuðu muninn. Seinni hálfleikurinn var hörkuspennandi en Grótta náði að jafna úr vel útfærðri skyndisókn. Eftir það datt botninn úr spili okkar stúlkna og var jafnteflið sanngjörn niðurstaða. Síðasti leikur riðilsins var við HK á Hásteinsvelli við toppaðstæður, frábært gras og aðeins stærri völlur. Það tók stúlkurnar smá tíma að átta sig á plássinu sem þær höfðu en þegar spilið fór á fullt átti HK lítið erindi í okkar stúlkur og eftir að við náðum loksins að brjóta ísinn fylgdu með tvö mörk í kjölfarið. Við spiluðum síðan um 9. sætið við Þór þar sem sigur hafðist 3-2 í hörkuleik sem var frábær skemmtun.

Það blés ekki byrlega fyrir B liðið í upphafi móts, fyrsti leikur var á móti sterku liði Snæfellsness sem fór létt með okkar stúlkur og ekki tók betra við því FH liðið var enn sterkara og annað stóra tapið í 2 leikjum staðreynd og brúnin á okkar stúlkum aðeins farin að síga. Þær rifu sig þó upp fyrir síðasta leik dagsins og eftir jafna byrjun náðu okkar stúlkur yfirhöndinni á móti Þór og höfðu loks sigur 3-0. Næsti dagur byrjaði örlítið betur en andstæðingurinn þann morguninn var Skallagrímur. Sá leikur tapaðist þó 3-0 en tölurnar segja ekki allt því leikurinn var mjög jafn en Borgnesingar nýttu færin sín betur. Næst varð það HK en sá leikur sigraðist örugglega og við aðeins farin að lyfta okkur upp töfluna. Breiðablik bauð upp á hörkuleik en eftir harða baráttu tapaðist sá leikur 1-0. Í síðasta leik riðilsins beið okkar úrslitaleikur við Gróttu um 5. sætið í riðlinum. Grótta skoraði úr sinni fyrstu almennilegu sókn og komst yfir snemma leiks en okkar stúlkur bættu bara í og juku pressuna. Þær máttu þó bíða eftir að sú pressa bæri árangur því markið kom ekki fyrr en seint í seinni hálfleik. Þrátt fyrir góðar tilraunir til að ná forystunni endaði leikurinn 1-1 en það dugði okkur til ná 5. sætinu. Við spiluðum því við KR um 9. sætið en sá leikur tapaðist 2-0 og 10. sætið því niðurstaðan.

C liðið byrjaði mótið með smá hiksti því þær lentu snemma 1-0 undir á móti KR en komu sterkar til baka og unnu góðan 3-1 sigur. Leikurinn við Breiðablik byrjaði svipað því þær komust yfir snemma leiks, okkar stúlkur jöfnuðu en blikastúlkur komust fljótlega yfir aftur. Lengi vel var leikurinn í járnum en blikastúlkur bættu við þriðja markinu um miðjan seinni hálfleikinn og þá var brekkan orðin fullbrött. Varð þetta að nokkurskonar þema mótsins því næstu fjórir leikir, á móti Þrótti, Fylki, Fram og FH, voru allir mjög svipaðir; jafnir leikir, staðan 2-1 lengi vel og okkar stúlkur alltaf í séns á að jafna en síðan kemur þriðja markið í seinni hluta seinni hálfleiks og vonin úti. Það munstur var ekki brotið fyrr en í leiknum við Aftureldingu en því miður þá voru Aftureldingarstúlkur einfaldlega einum klassa fyrir ofan okkar stúlkur og höfðu auðveldan 3-0 sigur. Þess má þó til gamans geta að þær unnu úrslitaleikinn í C liðum einnig 3-0 og klárlega besta C lið mótsins. Það beið því leikur við Keflavík um 13. sætið í mótinu og stúlkurnar vissu að nú væri í vændum enn einn hörkuleikurinn og í þetta skiptið skyldi hann ekki tapast 3-1. Það varð líka staðreyndin því 1-0 sigur varð niðurstaðan og stúlkurnar alsælar með nýju þjálfarana sína þá Böðvar og Friðrik.

Enn og aftur takk kærlega fyrir frábært mót.

þriðjudagur, 19. júní 2012

Afturelding á morgun

A og B lið eiga leik á móti Aftureldingu á morgun og þar sem það eru svo margar í fríi verður ekki æfing á morgun heldur eiga allar að spila. A-liðið mætir klukkan 15:30 og B klukkan 16:20. Þær sem eiga að mæta eru:

A: Vala, Sóley, Birgitta, Veiga, Sara S, Ragnhildur (mark), Dagný
B: Helga S, Eygló, Lára, Helga R, Ragnhildur, Anna L

Spilað verður á Tungubakkavelli, til að komast þangað er keyrt í gegnum Mosfellsbæ, norður eftir Vesturlandsvegi, framhjá afleggjara í átt að Þingvöllum. Þegar komið er að nýju mislægu gatnamótunum aðeins síðar er farið til vinstri (s.s. útaf til hægri og yfir brúnna). Næst er beygt til hægri inn Vogatungu og við enda hennar er völlurinn. Kort á Google maps:

https://maps.google.is/?ll=64.178352,-21.688643&spn=0.024263,0.066175&t=h&z=14

sunnudagur, 17. júní 2012

Vikan 18. - 24. júní

Mánudagur: æfing kl. 14:15
Þriðjudagur: æfing kl. 14:15
Miðvikudagur: leikir hjá A og B á móti Aftureldingu kl. 16:00 á útivelli
Fimmtudagur: æfing kl. 14:15
Föstudagur: æfing kl. 13:30
Laugardagur: Frí
Sunnudagur: Frí

þriðjudagur, 12. júní 2012

Miðvikudagur: Lagt af stað til Eyja.

Á morgunn (miðvikudag) verður æfing kl 10.00 á grasi í Víkinni.

Síðan er mæting uppúr 13.00 í Víkina aftur, lagt verður af stað með rútu til Vestmannareyja kl. 13.30.

mánudagur, 11. júní 2012

Sumartími á æfingum

Í dag byrjar nýr æfingartími: 
Æfingar eru því alla virka daga frá 14.15-15.30.
Semsagt:
Mánudagur 14.15 Fótbolta æfing
Þriðjudagur 14.15 Fótbolta æfing
Miðvikudagur verður morgun æfing áður en lagt er af stað til Eyja.

fimmtudagur, 7. júní 2012

Vikan sem eftir er!

Það verður ekki styrktaræfing í dag (fimmtudag), næsta æfing er á morgunn (föstudag) kl. 15.00 og vil ég sjá allar þær sem spiluðu leikina gegn Fylki á æfingunni.


Leikir gegn Fylki

A-lið tapaði 1-3 gegn Fylki í mikklum baráttu leik.  Eftir að hafa lennt marki undir komu stelpurnar sterkar til baka og jöfnuðu leikinn.  Við vorum svo óheppnar að fá dæmt gegn okkur víti og síðan kláraði Fylkir leikinn með þriðja markinu.  Það var augljóst að stelpurnar væru að berjast með öllu sem þær höfðu en því miður voru þær ekki samstíga í því og lenntum við of oft í því að vera ein gegn tveimur og var okkur refsað fyrir vikið.

C-lið tapaði 1-7 gegn Fylki þar sem að við byrjuðum mjög illa.  Við náðum að komast meira inn í leikinn þegar á leið en erfið byjun hafði gert bilið of mikið.  Ég var ágætlega ánægður með seinni hálfleik þar sem stelpurnar virtust tilbúnar í slaginn og ef við hefðum getað verið þannig alveg frá byrjun þá hefði þetta orðið mun jafnari leikur.

B-lið tapaði 0-4 gegn Fylki í leik sem hefði getað farið betur, við byrjuðum illa og áttum erfitt með að koma til baka eftir það.  Þegar kom að síðasta sóknar þriðjung þá héldum við boltanum ekki nægilega vel til að ná góðu skoti að marki, þar af leiðandi gekk illa að skora.  svipað og hjá A og C liðunum þá var liðs vinnslan ekki nægilega góð og spilað er of auðveldlega framhjá okkur þegar við verjumst ekki saman sem ein heild.

Tveir hlutir sem við þurfum að hafa í huga, first er að dómarinn sér um að dæma leikina, hann getur auðveldlega gert mistök alveg eins og við sjálf og það að fara ætla segja honum til er ekki að fara hjálpa liðinu okkar á neinn hátt.  Annað sem við gerðum svo vel í síðustu viku gegn ÍR var að vinna sem lið þegar kom að varnarleiknum og fyrir vikið fáum við boltan meira til að spila fótbolta, það vantaði hjá öllum liðunum gegn Fylki og það var of oft sem við horfðum á eina úr liðinu vera að pressa leikmann sem var með bolta án þess að aðstoða á neinn hátt.  Eitt sem við meigum muna og það er að við sigrum leiki sem lið, en auðveldast er að tapa leikjum sem einstaklingur.

þriðjudagur, 5. júní 2012

Leikir gegn Fylki á Víkingsvelli í dag.

Leikir gegn Fylki í dag á Víkingsvelli.
A-lið (Vala, Ísabella, Karólína, Birgitta, Veiga, Elísabet, Magga og Elísa) á að mæta kl 15.30
B-lið (Bjarndís, Brynja, Sóley, Sara S, Hrafnhildur, Anna L, Sara A, auk Maríu, Örnu og Ísafold úr 6. flokki) mæting kl. 16.20
C-lið (Eygló, Lára, Helga R, Helga S, Jóhanna, Sigga, Steinunn, Ragnhildur) mæting kl. 15.30

föstudagur, 1. júní 2012

Leikir A og B gegn ÍR

A-lið gerði 4-4 jafntefli við ÍR í leik þar sem þær voru klárlega betri liðið.  Við héldum boltanum vel og voru allar stelpurnar gríðarlega duglegar, sérstaklega að aðstoða hvor aðra varnarlega.  Leikurinn fór að mestum hluta fram á vallarhelmingi ÍR en þær beittu skyndisóknum sem skilu sér í 4 mörkum.  Ósanngjarnt jafntefli þar sem við áttum sigur skilið en þetta var án efa besti leikurinn sem ég hef séð liðið spila, með því að halda áfram að byggja ofan á vinnuna úr þessum leik verður þetta mjög skemmtilegt sumar.

B-lið gerði 2-2 jafntefli, eftir að hafa verið undir tveimur mörkum í hálfleik komu stelpurnar sterkar til baka í seinni hálfleik og jöfnuðu leikinn.  Í þessum leik eins og með A-liðið voru stelpurnar betri aðilinn í leiknum, þær héldu boltanum ágætlega og áttu frábærar sóknir með góðri spila mennsku.  Það var kannski of stór biti að lenda tveimur mörkum undir í byrjun en stelpurnar sýndu styrk og héldu áfram að spila sinn leik og uppskáru jafntefli í lokinn, þó svo að sigur hefði sanngjarn.

Bæði lið sýndu mikinn vilja styrk eftir að hafa lent undir.  Spilamennskan og baráttan var til fyrirmyndar hjá báðum liðum og vonandi átta stelpurnar á sig hvað þær þurfa að leggja á sig til að spila vel.  Var mjög stoltur af öllum í dag og vonast til að sjá áframhald á þessum vilja og dugnaði.