mánudagur, 21. maí 2012

Ótrúlegir leikir gegn Fjölni

A og B liðin mættu Fjölni í síðasta leik í Reykjarvíkurmótinu í vikunni, A liðið sat um miðja deild en B liðið átti möguleika á 3. sæti með sigri.

Leikur A liðsins hófst með mikilli einstefnu að marki Fjölnis en þrátt fyrir þunga sókn áttum við í miklum erfiðleikum með að brjótast í gegnum þéttan varnamúr Fjölnis. Áttum við ófá skotin sem ýmist fóru í hliðarnetið eða hreinlega beint á markmann Fjölnis. Undir lok hálfleiksins komst framherji Fjölnis ein á móti Völu og setti boltann snyrtilega yfir hana og í netið, 1-0. Var augljóst að okkar öftustu menn voru ekki alveg með á nótunum enda höfðu þær verið í hlutverki áhorfenda fram að þessu því þetta var fyrsta sókn Fjölnis í leiknum.

Í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum, við sóttum og sóttum en inn vildi boltinn ekki, smátt og smátt fór um við að auka sóknarþungann en um leið minnkaði áherslan á varnarleikinn og náðu Fjölnisstúlkur að sleppa tvisvar í gegn og skora önnur tvö mörk. Við það var allur vindur úr okkar stúlkum auk þess sem mikil meiðsl hrjáðu liðið og því endaði leikurinn án þess að við næðum að skora. Mikil vonbrigði því við vorum klárlega betra liðið en það eru víst mörkin sem telja í þessari íþrótt.

B liðið átti eins og áður sagði möguleika á þriðja sætinu með sigri, vegna forfalla voru aðeins 7 stúlkur mættar og fengum við því þær Örnu, Maríu og Þórunni úr 6. fl. að láni sem varamenn og þökkum við þeim fyrir sína frammistöðu. Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill, mikið um miðjumoð en við áttum þó nokkrar fallegar sóknir og fékk Sóley nokkur tækifæri til að skora en markvörður Fjölnis sá við henni. Snemma í síðari hálfleiknum gerðist umdeilt atvik, Fjölnir var í sókn og stungu boltanum inn fyrir vörn okkar en þar var Hrafnhildur mætt í markinu og tók hann með höndum rétt áður en sóknarmaður Fjölnis sparkaði hann úr höndunum á henni og síðan í markið. Klárt brot en því miður sá dómarinn það ekki og markið stóð. Stuttu síðar bættu Fjölnisstúlkur við öðru marki með laglegu skoti utan teigs og staðan orðin erfið. Stuttu fyrir leikslok minnkaði Dagný muninn og hleypti spennu í leikinn en rétt fyrir leikslok juku Fjölnisstúlkur aftur forskotið eftir misskilning í hjá okkar stúlkum í vörninni og þar við sat.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli