sunnudagur, 13. maí 2012

Glæsilegur sigur hjá D liðinu á Fylki 2 og annað sæti í Reykjavíkurmótinu

D liðið sótti Fylki heim í Árbæinn á laugardaginn í síðasta leik Reykjavíkurmótsins. Fyrir umferðina var staðan í riðlinu hnífjöfn, okkar stúlkur sátu með 6 stig í 4 og neðsta sæti riðilsins, í öðru og þriðja voru Fylkisliðin tvö með 7 stig og á toppnum voru KR-ingar með 8 stig. Það var því ljóst að með hagstæðum úrslitum gat D liðið tryggt sér efsta sætið en til þess þurftu KR og Fylkir 1 að gera jafntefli, en sá leikur var spilaður á undan okkar, og við að vinna. Vonin um fyrsta sætið dó þó fljótt því Fylki gerði sér lítið fyrir og pakkaði KR saman, 6-0. Það þýddi að efsta sætið var ekki lengur í boði en annað sætið yrði okkar með sigri.

Leikurinn fór rólega af stað en vorum við þó ívið sterkari og fengum nokkur hálf-færi til að skora en markvörður Fylkis stóð vaktina vel. Okkar stúlkur voru að spila glæsilega og fór þar fremst í flokki Helga Rún sem var dugleg að finna kantmennina Eygló og Heklu sem voru með áætlunarferðir upp kantana. Undir lok hálfleiksins sóttu Fylkisstúlkur í sig veðrir og mátti Anna taka á honum stóra sínum í markinu eitt sinnið. Staðan í hálfleik var því 0-0 en þá þurfti Eygló að fara og því vorum við án varamanna í seinni hálfleik og útlit fyrir erfiðar 20 mínútur.

En okkar stúlkur létu það ekkert á sig fá og spiluðu bara betur í seinni hálfleik ef eitthvað var. Þegar skammt var liðið af hálfleiknum komst Helga Rún inn í sendingu á miðjum vellinum óð fram hjá tveimur leikmönnum Fylkis og renndi honum svo á milli lappa markmannsins og í fjærhornið með vinstri fæti. Stórglæsilegt mark sem þótti minna mikið á mark Giggs gegn Arsenal í FA bikarnum árið '99. 

Það sem eftir lifði leiks var leikurinn í járnum, Fylkir reyndi að sækja en strandaði hvað eftir annað á þeim stöllum Söru S og Helgu R sem stigu vart feilspor í leiknum, og þá sjaldan sem það gerðist var Helga S með allt á hreinu í markinu. Ef eitthvað var voru Víkingstúlkur nær því að bæta við en Fylkir að jafna og áttum við hverja  sóknina á fætur annarri þar sem boltinn gekk manna á milli en erfiðlega gekk að koma honum í netið.

Loks flautaði dómarinn til leiksloka og tóku þá stúlkurnar á móti verðlaunapeningum fyrir annað sætið þreyttar en ánægðar.

Maður leiksins: Helga Rún.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli